Haustið 2008 bauð Vitafélagið – íslensk strandmenning fulltrúum norrænna strandmenningarfélaga til Íslands í þeim tilgangi að kanna áhuga á samstarfi og búa til norrænar strandmenningarhátíðir. Fyrsta hátíðin var haldin á Húsavík 2011 undir heitinu Sail Húsavík, eftir það var yfirskriftin Nordisk kustkulturfestival/Nordisk kystkulturfestival. Hátíðarnar voru síðan haldnar ár hvert til ársins 2018. Ebeltoft í Danmörku tók við keflinu af Húsavík og hélt hátíð 2012, Karlskrona í Svíþjóð 2013, Ósló í Noregi 2014 Maríuhöfn á Álandseyjum 2015 og Suðurey í Færeyjum 2016. Það reyndist of kostnaðarsamt að halda hátíð á Grænlandi 2017 eins og fyrirhugað var, en 2018 var síðasta hátíðin að sinni haldin á Siglufirði. Með hátíðunum hófst víðtækt norrænt samstarf sem náði til fjölmargra einstaklinga, félagasamtaka, safna og stofnana. Með samstarfinu voru einstaklingar í grasrótinni virkjaðir jafnt og hæfasta fagfólk innan stofnana á sviði umhverfismála, fornleifaverndar, matarmenningar, tónlistar, dans og handverks við strönd og haf.
Tilgangur hátíðanna var að búa til vettvang leikinna og lærða til að hittast, fræðast, miðla, læra og mynda tengsl. Einnig til að styðja uppbyggingu og menningu á strandsvæðum og koma henni á framfæri við almenning og til þess að opna augu fólks fyrir mikilvægi þessa hluta vistkerfis jarðar og þeim ógnum sem að því steðja.
Einn af ávöxtum samstarfsins er að 14. desember 2021 var handverk og hefðir við smíði og notkun súðbyrtra báta tekið á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) yfir óáþreifanlegan menningararf.
Finnland 2025
Siglufjörður 2018
Osló 2014
Húsavík 2011
Færeyjar 2016
Karlskrona 2013
Álandseyjar 2015
Ebeltoft 2012